Fyrsti landsleikurinn verður á HM
15-05-2018
Elisabeth Johanna Zitterbart og Stefán Lárus Karlsson duttu heldur betur í lukkupottinn á dögunum þegar þau voru dregin út sem sigurvegarar í eigendaleik Kia. Í verðlaun fá þau ferð á HM og munu sjá leik Íslands og Nígeríu í Volgograd þann 22. júní. Þau eru búsett á Ytri Bægisá 2 nálægt Akureyri og eiga nýjan Kia Picanto. Mjög góð þáttaka var í leiknum en Kia er einn af styrktaraðilum FIFA og HM í Rússlandi.
„Við skráðum okkur í eigendaleikinn á netinu og erum himinlifandi að hafa verið dregin út sem sigurvegarar. Þetta kom okkur mjög skemmtilega á óvart þar sem við tökum mjög sjaldan þátt í happadrættum eða neinu slíku. Þetta verður mikið ævintýri að fara á HM og sjá leik Íslands og Nígeríu í þeirri frægu borg Volgograd. Við erum að sjálfsögðu mjög spennt fyrir ferðalaginu og leiknum. Við höfum hvorugt farið á landsleik þar sem við búum á sveitabæ fyrir norðan og rekum sauðfjárbú og ferðaþjónustu hér á Ytri Bægisá 2. Við fylgjumst bæði með fótbolta og horfum oft á leiki í sjónvarpinu. Ég fékk fótboltaáhugann með móðurmjólkinni þar sem ég er fædd í Þýskalandi, skammt frá Munchen í Bæjaralandi. Þar halda nánast allir með Bayern og ég líka. Ég hef búið á Íslandi lengst af lífs míns og er Íslendingur með þýsku ívafi,“ segir Elisabeth og hlær.
„Mér fannst frábært að fylgjast með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi þar sem frábær árangur liðsins, mikill áhugi og einlægni Íslendinga snertu hug og hjörtu fólks um allan heim. Ég er sannfærð um að það verður mjög góð stemmning meðal Íslendinga nú á HM eins og fyrir tveimur árum. Ég er viss um að íslenska liðið mun leggja sig hundrað prósent fram í leikjunum eins og alltaf og verða landi og þjóð til sóma,“ segir hún.
Elisabeth og Stefán eiga nýjan Kia Picanto. Hún segir að hann nýtist vel í sveitinni þótt hann sé ekki stór.
„Við skjótumst fram og til baka til Akureyrar til að versla og gera ýmislegt annað. Þetta er fínn frúarbíll í skutlið. Hann er sparneytinn og skemmtilegur í akstri og við erum mjög ánægð með hann. Svo erum við með stóran, gamlan jeppa sem við hömumst á í sveitaverkunum,“ segir Elisabeth.